4312000 feban@feban.is

Ársskýrsla menningar- og fræðslunefndar FEBAN 2015-2016

Starf nefndarinnar frá síðasta aðalfundi hefur verið með hefðbundnum hætti.

Bókaklúbburinn Fífan kemur saman 1. og 3. miðvikudag hvers mánaðar frá kl. 14 – 16 til að eiga saman lestrarstund þar sem prjónar eða önnur  handavinna eru gjarnan með. Við lesum í klukkutíma, fáum okkur kaffi og  síðan gerum við okkur ýmislegt til skemmtunar. Við höfum fengið myndasýningar frá Þjóðbirni Hannessyni og sýnishorn af kvæðamennsku frá Sigurbjörgu Halldórsdóttur. Auk þess hafa ýmsir velunnarar komið og lesið margt áhugavert fyrir okkur. Kann ég öllu þessu fólki bestu þakkir fyrir.

Í fyrra vor lukum við lestri á Híbýlum vindanna eftir Böðvar Guðmundsson og í september hófum við lestur á Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson. Í janúar hófum við lestur ferðasögu eftir Jón Bergmann Gíslason, en hún heitir Eitt ár úr æfisögu minni – langferðasaga- um Íslands fjöll og byggðir.  Það er góður hópur sem kemur á þessar lestrarstundir og fólki hefur fjölgað. Það komu 33 síðast þegar við hittumst, sem er mjög gott.

Við fórum í Borgarleikhúsið 4. júní og sáum Billy Elliot við almenna ánægju þátttakenda, sem voru 50.

Vorferð okkar var farin þann 11. júní 2015 og lá leiðin meðal annars um Vatnsnesið og Víðidalinn. Leiðsögumaður var Karl Sigurgeirsson.  Veðrið var kannski ekki sem best, t.d. snjór á Holtavörðuheiði á norðurleið, en það rættist úr því og ferðin fannst mér vel heppnuð og skemmtileg.  58 félagar fóru með.

Þann 24. október fórum við 23 félagar í Hörpuna og sáum Rakarann frá Sevilla.

5 nefndarfundir voru haldnir á starfsárinu.

Í nefndinni eru Guðmundur Kristjánsson, Hafdís Daníelsdóttir, Hulda Sigurðardóttir, Kristjana Emilía Guðmundsdóttir, Sigurlaug Inga Árnadóttir, Steingrímur Bragason og Sesselja Einarsdóttir.

11. mars 2016

Sesselja Einarsdóttir, formaður